top of page

Förum í göngutúr og brúkum bekki

Ásmegin gaf 10 bekki í verkefnið Brúkum bekki 2022


Hér á eftir fer umfjöllun af vef Hafnarfjarðarbæjar um gjöf Ásmegin sjúkraþjálfunar í samfélagsvekefnið Brúkum bekki: ,,Samfélagsverkefnið Brúkum bekki fékk á dögunum veglega gjöf frá Ásmegin sjúkraþjálfun þegar afhentir voru tíu bekkir af gerðinni Klettur. Bekkirnir hafa allir verið settir upp í kringum Ástjörn og í næsta nágrenni. Þessi gjöf Ásmegin er stærsta einstaka gjöf í verkefnið frá upphafi. Brúkum bekki verkefnið telur nú rúmlega 55 bekki sem staðsettir eru víðsvegar um Hafnarfjörð.


Aukin tækifæri til heilsueflingar og hreyfingar á svæðinu fyrir alla hópa


Brúkum bekki er sameiginlegt verkefni Öldungaráðs, Félags eldri borgara í Hafnarfirði, Félags sjúkraþjálfara og Hafnarfjarðarbæjar. F.v. Gunnlaugur Briem formaður Félags sjúkraþjálfara, Gylfi Ingvarsson hjá öldungaráði, Valgerður Sigurðardóttir hjá FebH, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Kristinn Magnússon eigandi Ásmegin og Herdís Hjörleifsdóttir verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ .


Ásmegin sjúkraþjálfun er staðsett að Ásvöllum 2 (Ásvallalaug) og býður staðsetningin nú þegar upp á fjölbreytta þjálfun s.s. vatnsleikfimi og hóptíma í tækjasal í samstarfi við önnur félög og fyrirtæki í húsinu. Staðsetning tíu bekkja í næsta nágrenni eykur tækifæri og möguleika laugargesta, íbúa og viðskiptavina Ásmegin til heilsueflingar og hreyfingar á svæðinu.


Stutt í næsta bekk - samfélagsverkefni sem blómstrar í bænum

Brúkum bekki er samfélagsverkefni sem staðið hefur yfir frá árinu 2013 og er nú svo komið að Hafnfirðingar og aðrir gestir geta gengið um nær öll hverfi Hafnarfjarðar og hvílt sig á bekk með um 250 - 300 metra millibili. Markmiðið er að stuðla að aukinni hreyfingu meðal m.a. eldri borgara og gera þeim kleift að fara út að ganga í sínu nærumhverfi. Verkefnið felur í sér að sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og jafnvel einstaklingar styrkja verkefnið með því að taka að sér að greiða fyrir gerð bekkjar eða bekkja.



55 bekkir frá rúmlega 30 aðilum

Rúmlega 30 fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hafa tekið þátt í verkefninu frá árinu 2013 með gjöf á einum eða fleiri bekkjum. Í heild eru bekkirnir orðnir 55 með gjöf Ásmegin. Bekkirnir eru framleiddir hjá Málmsteypunni Hellu sem gefur að auki ellefta hvern bekk. Bekkirnir eru merktir þeim sem bekkina gefa eða þeim aðila sem gefandi vill tileinka bekkinn. Brúkum bekki er sameiginlegt verkefni Öldungaráðs, Félags eldri borgara í Hafnarfirði, Félags sjúkraþjálfara og Hafnarfjarðarbæjar. "





bottom of page